Stefnuyfirlýsing

Stjórnmál og samfélag


Heilbrigð atvinnustefnu er grundvöllur að aukinni hagsæld í samfélaginu. Án efa stendur vilji flestra til þess að keppa að aukinni hagsæld samfélagsins fyrir alla. Samfélagi sem ég sé fyrir mér með samtvinningu á hæfilegum umsvifum hins opinbera, kröftugu atvinnulífi og stöndugum heimilum. Markmiðið er að byggja upp réttlátt samfélag í réttarríki, þar sem öllum þegnum er tryggður jafn réttur til menntunar, heilbrigðisþjónustu og búsetu.
 

Forsendur hagsældar eru heilbrigt atvinnulíf, í umhverfi þar sem ríkir stöðugleiki, rétt gengisskráning, lágt verðbólgustig og umsvif hins opinbera séu byggð á jákvæðri afkomu ríkissjóðs og sveitarfélaga. Til að tryggja bestu mögulega nýtingu framleiðslueininga samfélagsins, er mikilvægt að ábyrgðin og eignarhaldið á þeim sé í höndum einstaklinga og félaga í þeirra eigu. Til þess að svo sé unnt, er mikilvægt að tryggja jafnræði og frelsi einstaklinganna til orðs og athafna. Hlutverk stjórnvalda er: (a) setning löggjafar sem tryggir jafnræði, (b) sköpun hvetjandi rekstrarumhverfis og (c) að tryggja eftirlit með því að leikreglur séu haldnar. Samfélagið þarf síðan dómstóla til að taka á ágreiningsmálum og refsa fyrir brot á leikreglum þess.

 

Afstaða mín til þjóðmála hefur tæran samhljóm með stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Stefnu sem meitluð er í orð fyrsta formanns flokksins Jóns Þorlákssonar: „Að vinna í innanlandsmálum af víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“

 

Flest mál ef ekki öll, taka breytingum. En þó hygg ég að grundvöllur afstöðu og viðhorfs til samspils atvinnulífs og afkomu íbúa samfélagsins hafi ekki breyst og muni ekki breytast. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð barist fyrir framansögðum grunngildum, sem er byggt á því viðhorfi að traust atvinnulíf sé forsenda aukinnar hagsældar. Stöðugt þarf að berjast fyrir frelsi einstaklingsins til að fá að skapa sín eigin örlög, hamingju og verðmæti. Þeim sem minna mega sín, af hvaða ástæðu sem það kann að vera, ber að hjálpa til sjálfshjálpar og/eða tryggja þjónustu við þá sem veitir þeim kraft til að vera hluti af samfélaginu með þeirri reisn sem öllum mönnum er nauðsynleg.

 

Atvinnufrelsi og réttur einstaklingsins til að njóta ávaxta af vel unnu dagsverki verður hér eftir sem hingað til grundvöllur verðmæta- og atvinnusköpunar og í raun forsenda öflugs velferðarkerfis og samhjálpar. Samkeppnishæfur iðnaður, framleiðsla, verslun og þjónusta, skapa atvinnu og nauðsynlegan gjaldeyri. Öflugt atvinnulíf er því hryggsúlan í beinagrind þjóðarinnar. Mikilvægt  er að standa vörð um samkeppni, koma í veg fyrir einokun og fákeppni, til hagsbóta fyrir neytendur.

 

Lög og reglur á viðskipta- og neytendamarkaði eiga vera skýr og gagnsæ, sem og staða og hlutverk eftirlitsstofnana. Í þeim krappa dansi sem nú er stiginn er mikilvægara en oftast áður að grunngildi sjálfstæðisstefnunnar séu höfð í heiðri. Frelsi einstaklingins til orðs og athafna, hefur ekki einungis verið til umræðu, heldur er beinlínis tekist á um jafnvægið milli ríkisforsjár og einstaklingsfrelsis og sú barátta á eftir að harðna. Baráttan fyrir því að íslenskt velferðarkerfi verði ekki brotið á bak aftur er á herðum Sjálfstæðisflokksins, eins og hún hefur ætíð verið.

 

Stjórnmálamenn til vinstri í íslenskri pólitík keppast sem aldrei fyrr, við að tala niður frelsið, finna því allt til lasta og ganga svo langt að kenna því beinlínis um efnahagshrunið. Þetta er vitaskuld rangt og afar mikið lýðskrum. Nú boðar ríkisstjórnin afturhvarf til forsjárhyggju. Það er því rík þörf á að sýna mikla andstöðu gegn þeim áformum og hefja sjálfstæðisstefnuna hátt á loft að nýju.

 

Við Íslendingar erum öll á sama báti og getum unnið hvort með öðru og fyrir hvert annað. Við búum í harðbýlu landi, þar sem mikilvægi hvers og eins okkar er skýrt. Við þurfum að virkja drifkraft einstaklingsins til orðs og athafna, til aukinnar verðmætasköpunar enda er hún forsenda velferðarkerfisins. Réttlæti, samstaða, samhygð og samhjálp er forsenda sterks samfélags. Við höfum allt sem þarf, þurfum að vinna að því að virkja fyrirtæki, stofnanir og allan almenning til samvinnu.

 

Í sveitastjórnarkosningunum í vor verður tekist á um þessi gildi og á hvaða grunni við byggjum okkar samfélag. Það er því mikilvægt að við sjálfstæðismenn stöndum vaktina nú sem aldrei fyrr og berjumst af krafti fyrir hagsmunum samfélagsins, velferðarkerfisins, atvinnulífsins og heimilanna í landinu.

 

Eiríkur Finnur Greipsson













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.