Ákveðið var á aðalfundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Ísafjarðarbæ þann 13. október 2009 að halda prófkjör vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor. Þetta var samþykkt með einu mótatkvæði. Prófkjörið á að halda 13. febrúar 2010.
Á fundinum lýsti ég því yfir að ég gæfi kost á mér til forystu fyrir flokkinn í sveitarstjórnarkosningunum í vor, enda væri ljóst að tveir efstu menn núverandi lista Sjálfstæðisflokksins, þau Halldór Halldórsson og Birna Lárusdótir gæfu ekki kost á sér.
Þá lýstu bæjarfulltrúarnir Gísli Halldór Halldórsson og Guðný Stefanía Stefánsdóttir, og varabæjarfulltrúinn Ingólfur Þorleifsson því ennfremur yfir að þau gæfu kost á sér í prófkjörinu. Gísli Halldór lýsti því jafnframt yfir að hann gæfi kost á sér til forystu á listanum.
Halldór Halldórsson bæjarstjóri leiddi lista sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Hann og Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar höfðu áður gefið út að þau myndu ekki gefa kost á sér áfram til forystu í bæjarstjórn.