Það hefur verið lærdómsríkt og skemmtilegt að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Ísafjarðarbæ. Áhugi á prófkjöri sjálfstæðismanna finnst mér ótrúlega mikill hér í bæ og trúlega hefur sjaldan verið jafn mikill áhugi á stjórnmálum á Íslandi og nú. Þessi áhugi nær greinilega ekki síður til sveitarstjórnarmála en landsmála. Auðvitað var það hið margumrædda hrun sem blés lífi í stjórnmálaumræðuna enda er fólk hér, ekki síður en annars staðar, áhyggjufullt vegna þeirra erfiðleika sem hrun bankakerfisins skapaði.
Það ríkir þó engin bölsýni á Vestfjörðum. Við sjáum fram á ný tækifæri, ekki síst í atvinnulífinu. Til að mynda er reiknað með töluverðum vexti í ferðaþjónustu á svæðinu; æ fleiri Íslendingar og í raun heimurinn allur hafa uppgötvað náttúruperluna Vestfirði, litríka menningu og merkilega sögu svæðisins.
Sjávarútvegurinn á Íslandi glímir við margskonar erfiðleika og framundan gætu verið töluverðar breytingar á ytra umhverfi greinarinnar og fyrirtækjum innan hennar. Það er þó full ástæða til þess að ætla að sjávarútvegurinn á Vestfjörðum muni standa af sér þessa umbreytingu. Fiskimiðin, og sú reynsla og þekking á sjávarútvegi sem hér hefur skapast á sér fáa sína líka í heiminum, og hana eigum við að nýta okkur enn frekar en orðið er, bæði á sviði atvinnu- og menntamála.
En ef Vestfirðingar eiga að nýta sér þá möguleika sem eru fyrir hendi verður að spyrna gegn þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið síðastliðið ár. Sveitastjórnarkosningarnar í vor eru mikilvægur þáttur í þeirri baráttu, því með sigri Sjálfstæðisflokksins getum við myndað öflugt mótvægi við stefnuna í landsmálunum. Þá getum við sýnt í verki að það er hægt að ná fram sparnaði og auka skilvirkni stjórnsýslunnar án þess að skerða þjónustuna. Ólíkt ríkisstjórninni munum við ekki ganga gegn fyrirtækjum og heimilum með auknum sköttum og gjöldum. Með skynsamlegri fjármálastjórn getum við staðið vörð um atvinnulífið og frumkvöðla, á sama tíma og við hlúum að velferðarþjónustu bæjarfélagsins. Þetta tvennt vinnur ekki hvort gegn öðru eins og ætla mætti af stefnu ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti: öflugt atvinnulíf er forsenda öflugrar velferðarþjónustu.
Eftir þátttöku mína í prófkjörinu veit ég að hér á svæðinu og innan flokksins er fjölmargt fólk sem er tilbúið að vinna Sjálfstæðisstefnunni brautargengi. Öflugur framboðslisti sem tekst að virkja fólk til samstöðu mun standa uppi sem sigurvegari í kosningunum í vor.
Ég vil að lokum þakka öllum frambjóðendum í prófkjöri flokksins nú, fyrir ákaflega skemmtilega baráttu og góða viðkynningu. Stuðningsmönnum mínum þakka ég fyrir þeirra öfluga starf og stuðning. Ég er fullur tilhlökkunar gagnvart framtíðinni og þeim möguleikum sem hér eru til staðar til eflingar samfélagsins. Með stuðningi þínum kæri kjósandi, við framboð mitt í 1. sæti, vonast ég til að geta lagt gjörva hönd á plóg við þá baráttu sem okkur öllum er mikilvæg. Tryggjum samstöðu til sóknar!
Eiríkur Finnur Greipsson.