Ágætu sjálfstæðismenn í Ísafjarðarbæ.
Af mikilli auðmýkt og einlægni vil ég fá að þakka ykkur öllum fyrir stórkostlega þátttöku í prófkjörinu í gær, 13.02.10. Ég fullyrði að kjörsóknin fór framúr björtustu vonum flestra. Það er vandfundið það prófkjör á landinu sem hefur farið fram á liðnum mánuðum, sem getur státað af jafn mikilli kjörsókn og prófkjörið okkar, eða 82%. Nýskráningar í flokkinn voru lika með ólíkindum og hlýtur að vera til merkis um að við eigum góðan hljómgrunn með stefnu flokksins og þann árangur sem okkar fólk hefur náð með meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn á liðnum kjörtímabilum.
Sjálfur hlýt ég að vera í skýjunum með minn persónulega árangur. Að fá tæplega 90% kjósenda til að setja nafn mitt á blað og rúm 60% til að velja mig í oddvitasætið, það er einfaldlega ótrúlegt. Ekki hvað síst þegar mið er af því tekið að við vorum þrjú sem kepptum að sama markinu, þe. oddvitasætinu.
Ég þakka öllum mínum stuðningsmönnum frá innstu hjartarótum. Vissulega er slíkur sigur alls ekki verk eins manns, enda naut ég góðs og einlægs stuðnings nokkurra einstaklinga sem hvöttu mig og studdu alla kosningabaráttuna. Allan þann tíma sem ég hef unnið að kjöri mínu í þessu nýafstaðna prófkjöri hef ég mætt sérlega hlýju og hvetjandi fólki, sem hefur gefið mér ótrúlegan styrk og mikinn baráttuvilja. Mótframbjóðendum mínum þakka ég mjög drengilega baráttu og vel út færða. Kjörnefnd og stjórn Fulltrúaráðsins þakka ég einnig undirbúning og framkvæmd prófkjörsins, sem var flott í alla staði.
Sjálfstæðismenn, nú snúum við bökum saman og hefjum gunnfána frelsis og einkaframtaks á loft. Við sækjum fram til sigurs í vor.
Hér að neðan gefur að lita fréttir af niðurstöðum prófkjörsins í tveim vefmiðlum, bb og mbl.
Eftirfarandi frétt birtist í dag, 14. febrúar, á vefmiðlinum www.bb.is
"Eiríkur Finnur Greipsson, framkvæmdastjóri TH ehf., á Ísafirði sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ, sem fram fór í gær. Hann fékk 479 atkvæði í 1. sæti. Gísli Halldór Halldórsson, fjármálstjóri MÍ og bæjarfulltrúi, varð annar með 275 atkvæði í 1.-2. sæti og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, sagnfræðingur, varð þriðja með 356 atkvæði í 1.-3. sæti. Kristín Hálfdánsdóttir varð í fjórða sæti með 380 atkvæði í 1.-4. sæti, Margrét Halldórsdóttir, hafnaði í fimmta sæti með 469 atkvæði í 1.-5. sæti og Guðný Stefanía Stefánsdóttir varð í sjötta sæti með 546 atkvæði í 1.- 6. sæti.
Á kjörskrá voru 992 manns og greiddu 820 atkvæði. Kjörsókn var því 82,6%, sem verður að teljast mjög góð. Gild atkvæði voru 791 og ógild voru 29."
Einnig má lesa viðtal við mig og frétt um niðurstöðuna á www.mbl.is, með því að velja hér.