Ágæti kjósandi
Í sveitarstjórnarkosningunum þann 29. maí í vor, bjóða Sjálfstæðismenn í Ísafjarðarbæ fram hóp kraftmikils fólks til setu í bæjarstjórn kjörtímabilið 2010 til 2014. Listann skipa reynslumikið fólk til að takast á við krefjandi verkefni við stjórn bæjarfélagsins. Það hefur verið mér skemmtileg og uppörvandi reynsla að vinna með þessu fólki á liðnum vikum að gerð stefnuskrár fyrir framboðslistann, sem nú hefur verið kynnt með blaðaútgáfu og á vefsíðu okkar http://isafjardarbaer.xd.is . Við göngum fram undir kjörorðinu „Af festu til framtíðar.“
Nái sjálfstæðismenn árangri í komandi kosningum mun flokkurinn bjóða undirritaðann sem bæjarstjóraefni fyrir næsta kjörtímabil. Af því tilefni langar mig til að gera kjósendum örlitla grein fyrir mér og mínum áherslum. Ég er borinn og barnfæddur Flateyringur, 56 ára að aldri og er giftur Guðlaugu Auðunsdóttur sem er fædd ¬Reykjavíkingur. Eigum við þrjá uppkomna syni sem eru giftir eða í sambúð; barnabörnin eru orðin 2. Ég útskrifaðist 1980 frá Tækniskóla Íslands, sem byggingartæknifræðingur (B.Sc.) og hef starfað hér fyrir vestan ætíð síðan við ýmis stjórnunarstörf.
Ég var aðstoðarmaður Einars Odds Kristjánssonar í útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækinu Hjálmi hf. á Flateyri, til ársins 1994, en árið 1995 var ég ráðinn framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga. Haustið 1996 var ég ráðinn sparisjóðsstjóri og starfaði í Sparisjóði Vestfirðinga (síðar SpKef) til ágústloka 2008. Í dag starfa ég sem framkvæmdastjóri TH ehf. á Ísafirði og Akranesi.
Ég hef starfað mikið að félagsmálum og starfað m.a. í Lionsklúbbi Önundarfjarðar, Rótarýklúbbi Ísafjarðar, Frímúrarareglunni og Sjálfstæðisflokknum. Ég sat í hreppsnefnd Flateyrarhrepps í 13 ár lengst af sem oddviti og sinnti þá fjölbreyttum nefndastörfum fyrir sveitarfélagið. Ég var stjórnarformaður Orkubús Vestfjarða í 8 ár og hef auk þess setið í stjórnum ýmissa félaga og fyrirtækja. Formaður Hrafnseyrarnefndar hef ég verið frá 1997.
Ég er sannfærður um að þessi reynsla verður mér drjúgt veganesti fyrir krefjandi starf framkvæmdastjóra Ísafjarðarbæjar, ef af verður. Auk reynslunnar er ég starfsamur og fylginn mér og get tekið erfiðar ákvarðanir, ég hef lag til að vinna fólk á mitt band til góðra verka. Góður leiðtogi þarf að miðla málum en setur sínu fólki skýra framtíðarsýn til að stefna að. Það sem mestu máli skiptir til að ná árangri á næstu 4 árum er þó sá góði hópur sem með mér mun starfa.
Mikilvægasta verkefni væntanlegs bæjarstjóra er að tryggja vandaða og skilvirka stjórnsýslu og ábyrga fjármálastjórn. Það er nauðsynlegt til að takast á við mörg krefjandi verkefni framtíðar, svo sem í félagsmálum, umhverfis- og skipulagsmálum, íþrótta- og tómstundarmálum að ógleymdum atvinnumálum. Í þessum málum og fleirum hefur D-listinn sett fram markmið sín í ítarlegri stefnuskrá listans. Bæjarstjórn er nauðsynlegt að eiga gott og traust samstarf við íbúa og atvinnulíf til að ná skynsamlegri forgangsröðun verkefna í erfiðu efnahagsumhverfi líðandi stundar. Ekki má gleyma starfsmönnum Ísafjarðarbæjar í þessu sambandi en það er eitt af mikilvægari verkefnum bæjarstjóra að virkja þá til góðra verka fyrir íbúana í skilvirkri opinni stjórnsýslu.
Við þær þrengingar sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir er ekki trúverðugt að lofa auknum útgjöldum úr sameiginlegum sjóði okkar íbúanna. Áherslan verður því lögð á að nýta fjármuni sem best og velta við hverjum steini til að auka hagkvæmni í rekstri Ísafjarðarbæjar. Með þeim fjármunum sem þannig sparast má verja mikilvæga þjónustu og halda uppi þeim lífsgæðum sem íbúar Ísafjarðarbæjar eiga skilið.
Ég er sannfærður um að með festu og ábyrgð að leiðarljósi í rekstri og fjármálastjórn bæjarins sé unnt að sækja á ný mið og efla bæjarfélagið okkar. Til þess bið ég um stuðning þinn þann 29. maí n.k. Settu X við D-listann á kjördag.
Eiríkur Finnur Greipsson
oddviti D-listans í Ísafjarðarbæ 2010-2014.