Á bæjarstjórnarfundi í gær (19. maí 2011) var gengið frá ráðningu tveggja sviðstjóra hjá bænum í framhaldi af auglýsingu um þau störf fyrir nokkru. Þar var samþykkt að Jóhann Birkir Helgason verði ráðinn sem sviðstjóri umhverfis- og eignasviðs og Margrét Halldórsdóttir sem sviðstjóri skóla- og tómstundasviðs. Um ráðningu Jóhanns Birkis var full samstaða í bæjarstjórn. En Margrét hlaut 5 atkvæði meirihlutans í atkvæðagreiðslu í bæjarstjórninni gegn 4 atkvæðum minnihlutans.
Meirihluti B- og D-lista hefur sætt nokkurri gagnrýni fyrir það að ætla að ráða Margréti Halldórsdóttur (pólitískan samherja sjálfstæðismanna) í umrætt starf, en hún skipar 5 sæti D-listans. Í því pólitíska moldvirði sem upp hefur verið blásið vegna ráðningar hennar, hefur hæfi hennar verið dregið í efa samanborið við aðra umsækjendur sérstaklega á grundvelli menntunar. Jafnframt hefur verið látið að því liggja að við höfum pantað umrædda niðurstöðu. Mig langar til að útskýra afstöðu okkar aðeins varðandi þessi atriði.
Í fyrsta lagi varðandi hæfi umsækjenda þá er það þannig að margir þættir eru metnir, ekki bara menntun. Þar er m.a. metið hæfni til að stjórna, reynsla að gerð fjárhagsáætlana, hæfni til að vinna með öðru fólki, frumkvæði, þekking á þeim málaflokkum sem undir eru og svo menntun. Þegar að allir þessir þættir eru skoðaðir er það mat okkar og Capacent kemst að sömu niðurstöðu, að Margrét Halldórsdóttir er hæfust til að gegna starfinu. Ef einungis ætti að horfa á menntun við ráðningar hjá sveitarfélögum væri engin þörf á því að leita til rágjafa við mannaráðningar. Hér er um að ræða stjórnunarstöðu hjá bænum yfir umfangsmesta sviði bæjarins og verður með um helming útgjalda bæjarins undir og þar af leiðandi er ekki bara hægt að horfa til þess að viðkomandi sé með framhaldsmenntun á sviði menntunarmála, þar þarf og hlýtur fleira að koma til.
Í þessu samhengi má einnig benda á varðandi aðrar ráðningar hjá bænum frá síðastliðnum kosningum, þar með talin ráðning bæjarstjóra, hefur síður en svo verið regla að mest menntaði einstaklingurinn hafi jafnframt verið talinn sá hæfasti. Í þessu tilviki uppfyllir umræddur umsækjandi hæfniskröfur varðandi menntun sem settar eru fram í auglýsingu. Nákvæmlega sömu aðferðafræði hefur verið beitt við mat á umsækjendum í störf þeirra stjórnenda sem núverandi meirihluti hefur staðið að ráðningu á.
Varðandi fagmennsku við úrvinnslu umræddra umsókna þá er því til að svara að umrætt ráðningarferli hefur verið í höndum bæjarstjóra og Capacent og hafa bæjarfulltrúar ekki haft nein afskipti af því ferli. Capacent vann málið þannig að tekin voru símaviðtöl við um 10 einstaklinga. Fjórir einstaklingar voru svo teknir í ítarlegri viðtöl við bæjarstjóra og rágjafa Capacent. Þessir fjórir voru einnig beðnir um að taka persónuleikapróf. Í framhaldi af þessu sendi Capacent okkur niðurstöður úr hæfismati. Þar koma fram að mat þeirra væri að Jóna Benediktsdóttir og Margrét Halldórsdóttir væru metnar hæfastar. Munaði þar 0,01 á skalanum 1-5.
Bæjarstjóri lagði þá til að Capacent yrði fengið til að skoða leiðtogahæfileika og stjórnunarhæfileika betur þar sem að þeir voru taldir veigamiklir þættir í umræddu starfi og voru bara metnir út frá persónuleikaprófi í fyrra matinu. Bætti þá Capacent við mati sýnu á frammistöðu umsækjenda í viðtölum og umsögnum umsagnaraðila. Var það einungis skoðað fyrir tvo efstu aðilana úr fyrra matinu. Þegar að það hafði verið gert var Margrét talin hæfust með einkunnina 4,27 en Jóna með 4,18.
Vinnubrögð Capacent hafa einnig verið gagnrýnd og því haldið fram að við höfum pantað niðurstöðuna. Því höfnum við alfarið enda er enginn fótur fyrir því og Capacent hefur staðfest það. Hinsvegar hafa vinnubrögð Capacent því miður mátt vera betri á köflum, sérstaklega með það í huga að um mjög viðkvæmt mál er að ræða. Þar kom fram villa í excelskjali sem þau notast við til að meta hæfi umsækjenda. Villan varð þess valdandi að vægi ýmissa þátta skilaði sér ekki inn í lokaniðurstöðu matsins. Það hafði hinsvegar ekki nein áhrif á lokaniðurstöðuna eða röðun umsækjenda en engu að síður er slíkt fallið til að draga í efa vinnubrögð okkar í þessu máli.
Mannaráðningar eru oft erfiðar og umdeildar. Við höfum í þessu tilviki reynt eins og alltaf, að vinna þetta ferli faglega og fengið til þess færustu ráðgjafa á því sviði. Þeirra mat var það að sá umsækjandi sem að við leggjum til að verði ráðinn sé hæfastur. Þó að viðkomandi hafi ekki mesta menntun af þeim umsækjendum sem voru um starfið er það mat ráðningarfyrirtækisins og meirihlutans að þegar horft er til allra þeirra þátta sem gerðar eru kröfur um í viðkomandi starf, að þá sé Margrét Halldórsdóttir hæfust.
Að lokum læt ég fylgja með þær kröfur sem settar voru fram í auglýsingunni um sviðstjóra Skóla- og tómstundasviðs.
Verksvið sviðsstjóra er:
o Ábyrgð á þjónustu og rekstri sviðsins sem og á starfsmannamálum
o Yfirumsjón með rekstri leik- og grunnskóla, íþrótta- og tómstundamála
o Samræmingarhlutverk innan verksviðs íþrótta- og tómstundamála
o Umsjón með gerð fjárhagsáætlana og kostnaðareftirlit
Menntunar- og hæfniskröfur:
o Háskólamenntun sem nýtist í starfinu skilyrði, framhaldsmenntun er kostur
o Stjórnunarreynsla mjög æskileg, þekking af breytingarstjórnun er kostur
o Reynsla og þekking á sviði leik- og grunnskóla, íþrótta- og tómstundamála
o Reynsla af stefnumótun, samþættingarstarfi og verkefnastjórnun
o Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu er æskileg
o Reynsla af gerð fjárhagsáætlana og samningagerð
Leitað er að einstaklingum sem hafa:
o Leiðtogahæfileika og metnað til að ná árangri í starfi
o Stefnumótandi hugsun
o Áhuga á uppbyggingu samfélagsins
o Frumkvæði og metnað
o Mikla hæfni í mannlegum samskiptum
Virðingarfyllst,
Eiríkur Finnur Greipsson oddviti D-lista.