Bjartsýni?

Án efa eru fjölmargir íbúar í Ísafjarðarbæ búnir að eiga gott sumarleyfi. Sumarleyfin hjálpa fólki til að styrkja tengsl við vini og kunningja, en ekki hvað síst til að styrkja fjölskylduböndin. Við köllum þetta líka stundum að „hlaða batteríin.“ Vonandi verður sú hleðsla nýtt til enn frekari uppbyggingar og sóknar á sem flestum sviðum hér í okkar annars frábæra samfélagi á næstu mánuðum og árum. Ég segi enn frekari uppbyggingar, því hér eru magnaðir hlutir að gerast. Lítum á nokkur dæmi.
 

Nýtt fyrirtæki í framleiðslu á lækningavörum er að taka til starfa, nafn félagsins er Kerecis ehf. og hafa fyrirmyndar fyrirtækin Klofningur ehf. á Suðureyri sem og Hraðfrystihúsið Gunnvör ehf. í Hnífsdal gengið til liðs við það sprotafyrirtæki. Hér er sérlega áhugavert fyrirtæki á ferð sem nýta mun hráefni úr hafinu og kallar á aukna þekkingu af vísindasviði til enn frekari landvinninga.
Mikill kraftur er í rækjuvinnslu Kampa ehf, en þar á bæ er m.a. áformað að byggja litla mjölverksmiðju til enn betri nýtingar á hráefninu eða öllu heldur afskurðinum og skelinni, og því sem nú fer niður um ræsið.  Á vegum Vaxtarsamnings Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða er unnið að ýmsum framfara- og þróunarmálum sem munu án efa leiða til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Um það vitna fjölmörg dæmi, sum stór, önnur minni.
 

Nýtt fyrirtæki var stofnað á árinu af eigendum Rafskauts ehf. sem heitir Fánasmiðjan ehf. og skv. fréttum eru  verkefnin þar á bæ ærin. En eigendur hafa auk kaupanna á verksmiðjunni, keypt mjög fullkomna skurðarvél sem sker með ótrúlegri nákvæmni allar gerðir og þykktir efna, en með þessari vél er fyrirhugað að leita nýrra verkefna og markaða. Ný fyrirtæki eru mikilvæg en hér starfa fyrir öflug fyrirtæki á nánast öllum sviðum, svo sem fjölbreyttar verslanir og fyrirtæki í byggingar- og stáliðnaði.
 

Auknar skipakomur stórra skemmtiferðaskipa eru til Ísafjarðar og þeim fylgja auðvitað aukin umsvif ferðþjónustuaðila. Unnt er að ferðast um einstaka firðina og Djúpið, til náttúruparadísarinnar í Jökulfjörðum og á Strandir með frábærum ferðaþjónustuaðilum. Sífellt er unnið að því að bæta aðstöðu á tjaldsvæðum, margar gönguleiðir hafa verið merktar, ný söfn opnuð og gömul söfn efld og endurnýuð. Allt er þetta að stuðla að uppbyggingu ferðaþjónustunnar.
 

Stofnað var í vor félagið „Sportbátamiðstöð Íslands“ og vonandi er þar kominn á koppinn fyrsti vísir að öflugri miðstöð fyrir hvers konar sjósport, hvort heldur er skútusiglingar, kajak-róðra, skemmtibáta hvers konar eða annað tengt sjónum. Hér á þessu svæði er ein fjölbreyttasta og lengsta strandlengja landsins, aðdáunarverðir firðir og vogar.  En þessu tengt má nefna áhuga fjölmargra aðila um uppbyggingu smábátahafnar milli Torfnesrifs og Pollgötunnar. Möguleg landfylling á Torfnesrifi er líka spennandi kostur sem verður að leggja fagurfræðilegt og fjárhagslegt mat á sem allra fyrst.
 

Fréttir berast af áhugasömum valkyrjum sem ætla sér í hótelrekstur á eyrinni í Skultulsfirði – reyndar á öðru sviði en hótelin og gistirýmin sem fyrir eru á Ísafirði. Unnt er að fá góðar veitingar, kaffi og eða mat, en einnig gistingu í nánast öllum þéttbýsliskjörnum bæjarins, auk Núps og í Friðarsetrinu í Holti. Miklum fjármunum var varið á sl. ári og þessu til uppbyggingar á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns forseta Sigurðssonar og ný glæsileg sýning opnuð þar í sumar og er aðgangur ókeypis.
 

Jákvæðar fréttir berast einnig af eldi í sjó, þorskeldi, lax- og silungaeldi sem ætlað er að stórauka á næstu misserum. Einnig er vaxandi eldi á kræklingi. Í fallegum fjörðum Vestfjarða eru mikil verðmæti fólgin og þau þarf að kortleggja, enda eru þau ekki ótakmörkuð. Þess vegna m.a. hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lagt á það áherslu að sveitarfélög fái stjórnsýslulegt skipulagsvald fyrir þeim.
 

Í bænum eru haldnar mjög metnaðarfullar almenningsskemmtanir nánast allt árið um kring, svo sem Mýrarboltinn um verslunarmannahelgina, tónlistarhátíðin „Við Djúpið“ er haldin árlega á sumardögum með heimsþekktum listamönnum, tónlistarveislan Aldrei fór ég suður fer fram um páska ár hvert. Einleikjahátíðinni Act Alone er nýlokið með meiri aðsókn og glæsileika en nokkru sinni áður. Þá má nefna Dýrafjarðardaga, Sæluhelgina á Suðureyri og götuveisluna í Ólafstúni. Hér er boðið uppá íþróttakeppnir á borð við Fossavatnsgönguna, Vesturgötuna og fleiri, sem mikil þátttaka er í. Víkingaverkefnið á Þingeyri, „Hús og fólk“ á Flateyri og Sjávarþorpið Suðureyri eru dæmi um dirft og dugnað íbúa í þorpunum til að styrkja sín samfélög. Við alla þessa atburði er lagt fram ómæld vinna sjálfboðaliða, sem er aðdáunar- og þakkarvert framtak!
 

Hér er einstakt félags- og menningarlíf. Hér starfa Zonta-, Lions- Kiwanis-, Rótarýklúbbar, einnig Oddfellow- og Frímúrarareglan, skátar, leikfélög, kvenfélög, kórar, lúðrasveit, og ferðafélag sem keppist við að kynna íbúum fjölbreyttar gönguleiðir um næsta nágrenni okkar. Hér er Þróunarsetrið með öllum sínum deildum, Háskólasetur Vestfjarða, fræðslumiðustöðin, menntaskólinn, dansskóli, listasmiðja og listaskóli, tónlistarskóli, grunnskóli og leikskólar af bestu gerð. Hér er frábært körfuboltafélag, hér er frábært fótboltafélag og fleiri íþróttafélög sem eru að gera flotta hluti. Félagsstarf eldri borgara er kröftugt. Félagsleg endurhæfingarúrræði fyrir atvinnulausa hafa verið í boði og borið góðan árangur. Heilbrigðisstofnunin okkar er með frábæru starfsfólki og flottum aðbúnaði. Þjónusta við fatlaða með því besta sem fyrirfinnst á Íslandi. Hér eru öflugar björgunarsveitir. Framboðið og fjölbreytnin er hreint út sagt ótrúleg og aðdáunarverð.
 

Allt er þetta nú sem hér er fært til leturs í stikkorðastíl og mjög margt er ótalið sem vert væri að gefa gaum í upprifjun sem þessari. Ég veit að þeir sem til þekkja, geta bætt helling við þessa upptalningu mína. En ætlan mín var aðeins að vekja á því athygli að hér er samfélag sem er algerlega frábært og á óteljandi tækifæri til sóknar og eflingar.
 

En erum við á réttri leið? Margt er hér ógert, fátt er hér illa gert, en margt hefur áunnist þó íbúarþóunin sé okkur enn óhagstæð. Vegferð okkar íbúanna á að byggjast á jákvæðum baráttuanda og dugnaði, samheldni milli byggðakjarna, eflingu atvinnulífs til sjávar og sveita, styrkingu menntastofnana og þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Vissulega eigum við mikið af óunnum verkefnum og mörgum erfiðum á vegum bæjarins, en ég geymi mér að ræða þau þar til lengra er liðið á haustið og því ræði ég þau ekki að þessu sinni. Notum jákvæðni og bjartsýni sem og orkuhleðslu sumarsins til nýrra verka og úrlausna. Verkefni vetrarins verða ekki öll auðveld en við munum leysa þau, vonandi til farsældar komandi kynslóða.
 

Verkefni framtíðarinnar er okkar að vinna, þitt og mitt – ekki annarra. Hér býr duglegt, vel menntað og áræðið fólk í umhverfi sem fjölmargir Íslendingar og enn fleiri útlendingar hafa ekki og verða því að láta sig dreyma um.
 

Snúum bökum saman, og gerum góðan bæ betri.
 

Eiríkur Finnur Greipsson
bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.
 













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.