Tíðum er sagt að þá sé gleði og gaman þegar fólki þykir tíminn líða hratt. En það er einmitt sú upplifun sem ég hef af starfi mínu sem oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Það er ótrúlegt að liðin séu hátt í fjögur ár frá síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Mikill samhljómur var með frambjóðendum listans í upphafi kjörtímabils, og endurnýjun á listanum var umtalsverð, reynsluboltar og nýliðar, aldnir með ungum. Þrátt fyrir innri baráttu okkar frambjóðendanna um hylli kjósenda í prófkjöri og í sumum tilvikum um sömu sætin, þá bar engan skugga á þá baráttu og samstarfið í okkar hópi eftir að kjörnefnd lauk störfum hefur verið til fyrirmyndar.
Við gengum til kosninga eftir mikið innra starf að mótun stefnumála og komu margir flokksmenn og óflokksbundnir að þeirri vinnu. Fullkomin samstaða var um hóflega orðaða málefnaskrá og hún kynnt ítarlega með viðtölum, fundarhöldum og heimsóknum í fyrirtæki. Við náðum glæsilegum árangri í sjálfum sveitarstjórnarkosningunum og fengum langflest atkvæði þrátt fyrir sameiginlegt mótframboð pólitískra félaga á vinstri væng stjórnmálanna. Fyrir það erum við frambjóðendur D-listans í bæjarstjórn afar þakklátir. Við náðum svo að mynda meirihluta með fulltrúa framsóknarflokksins í bæjarstjórn. Meirihlutasamstarf sem ég er stoltur af að hafa verið þátttakandi í.
Í stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna lögðum við áherslu á nokkur grundvallaratriði sem í langflestum tilfellum hefur tekist að standa við og gott betur í mörgum. Í stafni okkar starfs hefur gilt ábyrg fjármálastjórn. Í rekstri stofnana hefur náðst undraverður árangur með stefnumótun meirihlutaflokkanna. Styrk stjórn okkar kapps- og metnaðarfulla bæjarstjóra, Daníels Jakobssonar, og ekki síst ómæld vinna og dugnaður starfsmanna Ísafjarðarbæjar hefur síðan tryggt glæsilegan árangur. Já, ágætu íbúar Ísafjarðarbæjar við höfum með ykkar stuðningi og samstarfi leitt til lykta aragrúa mála, stórra sem smárra. Vissulega er enn glímt við óleyst verkefni og mál, svo mun verða áfram. En það er auðvitað þannig að án þátttöku starfsmanna bæjarins og velvilja íbúanna væri ekki unnt að ná þeim árangri sem raun ber vitni. Er þetta hástemmd lofgjörð án raka, um eigið ágæti okkar í meirihlutanum? Lítum á nokkur dæmi:
Í öllum tilvikum hefur framlag starfsmanna bæjarins og stuðningur íbúanna, þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta, verið grunnurinn að árangrinum. Það ber að þakka.
Í rekstrinum á árunum 2010 og 2011 var lögð áhersla á fjárfestingu í hlutum og verkefnum til lækkunar á rekstrarkostnaði, s.s. brunakerfi, lyftur, öryggishnappar o.m.fl. Allt hefur það skilað sér á sinn hátt. Viðsnúningurinn í rekstri bæjarsjóðs milli áranna 2011 og 2012 sýnir svo málið í hnotskurn: afkoman er 400 m.kr. betri á milli ára og sennilega yfir 1000 milljónir á kjörtímabilinu.
Hér hefur ekkert verið minnst á mál eins og flutning olíubirgðarstöðvarinnar út á Mávagarð, setningu siðareglna bæjarfulltrúa, nýja bæjarmálasamþykkt með mjög áhugaverðum breytingum, vinnu við innleiðingu á jafnréttisstefnu, yfirtöku á málefnum fatlaðra sem tókst með aðdáunarverðum hætti, byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis sem tekið verður í notkun á næsta ári og hefur verið baráttumál í áratugi, hagsmunagæslu gagnvart ríkisvaldinu í fjölda mála og málaflokka, úrbætur í fjarskiptamálum minni byggðakjarnanna, setningu reglna um stuðning við nýsköpun í atvinnulífinu, raunlækkun fjölmargra gjalda – svo sem leikskólagjalda, endurbætur á tjaldsvæði í Tungudal, stuðning við uppbyggingu áhorfendastúku á Torfnesi sem jafnframt mun skapa skotáhugamönnum flotta æfingaaðstöðu, samninga við HSV um stuðning við íþróttafélögin og ekki hvað síst við íþróttaskólann sem stjórn HSV, starfsfólk og aðildarfélögin ættu að fá æðstu orðu ríkisins fyrir, uppbyggingu varnargarða í Skutulsfirði, vinnu við skipulagsmál, reglur um fjallskil og fjölmargt fleira.
Auðvitað eru mörg mál sem fráfarandi bæjarstjórn hefur ekki tekist að leysa. Von mín er að viðtakandi meirihluti í bæjarstjórn beri þá gæfu til, að fækka enn frekar erfiðum málum í okkar fyrirmyndarsamfélagi sem myndar Ísafjarðarbæ. Ég er ekki í vafa um að leiðsögn meirihluta sjálfstæðismanna er lykill að árangri á þeirri leið.
Þó ég og eiginkona mín yrðum af persónulegum ástæðum að flytja frá Flateyri er mín vissa að framtíð bæjarins er umvafin glæsilegum tækifærum til eflingar samfélagsins. Ég vil því að lokum, í auðmýkt, fá að þakka ykkur öllum fyrir mig og Gullu mína – hvergi hefði ég frekar viljað geta starfað áfram; sérstakar þakkir færi ég: Daníel bæjarstjóra, sem ég tel að ásamt Völu eiginkonu sinni hafi verið alger happafengur fyrir samfélagið; frábærum meðframbjóðendum mínum á D-listanum, traustum oddvita framsóknarmanna Albertínu F. Elíasdóttur og hennar fólki, bæjarfulltrúum Í-listans, formanni fulltrúaráðsins Gunnari Þórðarsyni og öllum vinnuhestunum og félögunum í Sjálfstæðisflokknum, starfsmönnum Ísafjarðarbæjar, já ykkur öllum… og megi himnasmiðurinn blessa ykkur öll.
Eiríkur Finnur Greipsson
Ritað til birtingar í Vesturlandi, blaði Vestfirskra sjálfstæðismanna. Blaðið var gefið út í janúar 2014 til kynningar á frambjóðendum í prófkjöri félagsmanna v. sveitarstjórnarkosninganna vorið 2014.